Klappir

Powered by Klappir.com Loading your content...


Image result for arion bank logo


Umhverfisskýrsla 2016UM SKÝRSLUNA

Gögn og upplýsingar birtar í þessari skýrslu gilda fyrir árið 2016 og tengjast meginstarfsemi Arion banka. Dótturfélög standa utan uppgjörsins. Gögn frá 2015 eru sett fram til samanburðar.


UMHVERFISMÁL ARION BANKA


Arion banki ber virðingu fyrir umhverfi sínu og leitast við að lágmarka skaðleg áhrif rekstrarins á náttúruna. Umhverfisvitund endurspeglast í rekstri fyrirtækisins, stjórnun og daglegum störfum starfsmanna. Arion banki sýnir samfélagslega ábyrgð í verki með virkri þátttöku í samfélaginu og áherslu á uppbyggingu þess.

Á árinu 2016 var mótuð ný stefna um samfélagsábyrgð hjá Arion banka og helstu áhersluatriði skilgreind sem og hagsmunaaðilar. Nýja stefnan byggir á þeirri menningu sem skapast hefur innan bankans og því starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum en yfirskrift stefnunnar er Saman látum við góða hluti gerast. Stefnan tekur meðal annars mið af mikilvægi umhverfismála.

Nýja stefnan var samþykkt af stjórn á árinu 2016 og kynnt fyrir starfsfólki auk þess sem fjölda verkefna í tengslum við samfélagsábyrgð var komið í farveg á árinu. Í lok árs 2016 varð Arion banki aðili að UN Global Compact, alþjóðlegri yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna við innleiðingu ábyrgra starfshátta.


Saman látum við góða hluti gerast

Við viljum vera öðrum fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti sem taka mið af umhverfi, efnahagslífi og því samfélagi sem við störfum í. Við setjum okkur í spor viðskiptavina og leitumst stöðugt við að gera betur í dag en í gær.


Við störfum á eftirsóknarverðum vinnustað þar sem þekking skapar verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, fjárfestum og samfélaginu öllu til góða. 


Árið 2016 voru eftirfarandi áhersluatriði tengd samfélagsábyrgð bankans skilgreind:

 • Ábyrgir og arðsamir viðskiptahættir
 • Betri bankaþjónusta
 • Eftirsóknarverður vinnustaður
 • Skapandi efnahagslíf
 • Virðing fyrir umhverfinu 


UMHVERFISVÆNN BANKI

8,85% lækkun á kolefnisspori árið 2016

Markmið Arion banka

Arion banki leitast við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar. Umhverfismarkmið bankans eru að:

 

 • Flokka úrgang frá bankanum eins og hægt er hverju sinni
 • Fara sparlega með orku í starfsemi sinni
 • Nýta sér umhverfisvænar lausnir við prentun pappírs með nýrri tækni
 • Hvetja og styðja starfsmenn til að hafa umhverfismál að leiðarljósi í starfi og heima fyrir
 • Velja umhverfisvæna vöru og/eða þjónustu við innkaup þar sem því verður við komið
 • Stefna að aukinni hlutdeild pappírslausra viðskipta
 • Draga úr sóun

Samstarf í umhverfismálum

Arion banki undirritaði yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál þann 16. nóvember 2015. Yfirlýsingin fellur vel að umhverfisáherslum bankans. Með undirskrift sinni skuldbatt Arion banki sig til að vinna í eftirfarandi verkefnum:

 

 • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
 • Minnka myndun úrgangs
 • Mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta

 

Árið 2016 gaf Arion banki út sína fyrstu umhverfisskýrslu fyrir árið 2015. Skýrslan innihélt meðal annars umhverfismarkmið bankans og aðgerðaáætlun til að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar sem markvisst var unnið samkvæmt árið 2016. Vel gekk að vinna að markmiðunum og árið 2016 var heildarkolefnisspor bankans, á þeim þáttum sem mælingar náðu yfir, 8,85% lægra en árið á undan. 


Loftslagsverkefni Arion banka

Loftslagsverkefni Arion banka byggir bæði á þeirri vinnu sem hefur átt sér stað í umhverfismálum bankans og þeim grunni sem lagður var með yfirlýsingu um loftslagsmál, samstarfsverkefni 104 fyrirtækja sem sett var af stað í lok nóvember 2015. Verkefnið er metnaðarfullt og krefst góðs skipulags og stjórnunar til að tryggja árangur. Umhverfishópur Arion banka heldur utan um framkvæmd verkefnisins ásamt ráðgjöfum frá Klöppum sem unnið hafa gott starf.

Arion banki hefur lagt sérstaka áherslu á lið 3 í loftslagsyfirlýsingunni, þ.e. að koma upp öflugu upplýsingakerfi til að halda utan um umhverfismál bankans þannig að mælanleiki, gagnsæi og góð upplýsingagjöf sé tryggð.


Árið 2016 var unnið að eftirfarandi verkþáttum:

 • Innleiða verkferla og aðferðir til gagnasöfnunar og samkeyrslu gagna frá mismunandi upplýsingakerfum tengdum bifreiðum, húsnæði og öðrum mengandi þáttum í rekstri bankans.
 • Innleiða aðferðir og greiningartól til að mæla umhverfisáhrif vegna starfsemi Arion banka.

 • Innleiða upplýsingatækni og nýta hana í ríkum mæli til að skapa þekkingu og halda utan um árlega markmiðasetningu.
 • Nýta upplýsingatækni við stjórnun og rekstur félagsins með umhverfisvitund að leiðarljósi og í því skyni að lágmarka mengun vegna starfsemi félagsins.
 • Tengjast mikilvægum gagnalindum og tryggja stöðugt streymi gagna inn í gagnagrunn umhverfismála.Umhverfismál hafa verið ofarlega á baugi hjá Arion banka

ÁHERSLUR Í UMHVERFISMÁLUM


Umhverfismál hafa verið ofarlega á baugi hjá Arion banka undanfarin ár og á síðustu misserum hefur áhersla hefur verið lögð á að tryggja heildstætt yfirlit yfir umhverfisáhrif sem af starfseminni hljótast. Bankinn hefur ýtt úr vör margs konar verkefnum sem ætlað er að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Meðal þeirra verkefna eru kaup á rafmagnsbílum fyrir innanbæjarakstur á vinnutíma, innleiðing á samgöngustefnu fyrir starfsfólk, stuðningur við skógrækt og átak í að bæta sorpflokkun og minnka prentun. Áherslur Arion banka á stafræna þjónustu skipa einnig stóran sess í að draga úr kolefnisspori bankans og viðskiptavina hans.

Þessi kafli lýsir aðgerðum bankans til að draga úr losun frá eigin starfsemi og vegna aðkeyptrar þjónustu. Verkefnið er ferðalag til næstu ára og árangur verður birtur reglulega.


Eldsneytisnotkun bílaflotans


Rafræn skráning á olíutökum hverrar bifreiðar tengir saman upplýsingar um olíukort, bílnúmer og eldsneytistegund. Gögnunum er streymt inn í umhverfishugbúnað Arion banka þar sem hægt er að fylgjast með eldsneytisnotkun bílaflotans og þeirri losun sem myndast við akstur bifreiðanna í CO2 ígildum.Raforkunotkun


Raforkunotkun bankans hefur minnkað um 0,74% frá árinu 2015 og skýrist það að mestu leyti af fækkun fermetra í útibúaneti bankans. Í lok árs var sett af stað verkefni við að endurskoða rafmagnsnotkun í höfuðstöðvum bankans með það að markmiði að ná niður raforkunotkuninni. Þetta varð til þess að fjárfest var í 500 LED perum. Áætlað er að notkun á LED lýsingu dragi verulega úr raforkunotkun í höfuðstöðvum frá og með árinu 2017.12% minna sorp

Úrgangur


Á árinu 2016 var sett var af stað verkefni þar sem unnið var að því að auka flokkun og minnka magn heildarúrgangs í höfuðstöðvum og aðalútibúi Arion banka. Flokkun var bætt umtalsvert á báðum stöðum með nýjum flokkunartunnum fyrir plast, málma og spilliefni. Verkefnið hefur skilað góðum árangri en heildarmagn úrgangs frá starfsstöðvum bankans minnkaði um 12% á milli áranna 2015 og 2016. Sorpþjónustuaðili bankans aðstoðaði við skipulagningu flokkunar og endurskoðun sorphirðuáætlunar en auk þess hélt hann vel sóttan fræðslufund fyrir starfsfólk um endurvinnslu. 


Dregið úr matarsóun


Árið 2016 var hrint af stað átaksverkefni til að draga úr matarsóun í höfuðstöðvum og aðalútibúi bankans. Starfsfólk mötuneytisins í höfuðstöðvunum hóf að vigta allan þann mat sem féll af diskum starfsmanna í byrjun apríl og í lok júní var átakið kynnt fyrir starfsfólki. Mælingar höfðu því staðið yfir í þrjá mánuði áður en átakið var kynnt til þess að hafa samanburð á stöðu mála. 

Með markvissum aðgerðum hefur verið vakin athygli á mikilvægi þess að draga úr matarsóun. Meðal annars hafa reglulega verið birtar fréttir af árangri átaksins á innraneti bankans og skilaboð og myndskreytingar prýða nú mötuneyti höfuðstöðva og aðalútibús. Með hvatningu og þeirri áherslu á að hafa árangurinn sýnilegan hefur átakið skilað góðum árangri og frá því að mælingar hófust í apríl og til loka desember 2016 dróst matarsóunin töluvert saman.

Í október var gerð könnun á meðal starfsfólks til að kanna áhrif átaksins. Niðurstöður sýndu að 59% starfsfólks í höfuðstöðvum segjast fá sér minna á diskinn eftir að átak um að draga úr matarsóun hófst, 9% starfsfólks segjast borða meira til að klára af disknum en tæplega þriðjungur telur að átakið hafi ekki áhrif á hegðun sína og venjur.

Aðgerðir til að draga úr matarsóun starfsfólks tengjast því góða innra starfi í eldhúsi höfuðstöðva bankans sem fram hefur farið undanfarin ár. Mikil áhersla hefur verið lögð á að haga innkaupum mötuneytisins með þeim hætti að umframmagn aðfanga er lágmarkað en auk þess eru aðföng nýtt eftir fremsta megni svo sem með nýtingu á afskurði. Hráefni sem ekki nýtast strax til matseldar eru merkt, snöggfryst með viðeigandi búnaði og með skipulögðum hætti nýtt síðar. 

Áfram verður unnið í því að draga úr matarsóun í starfsemi bankans og á árinu 2017 verður lögð sérstök áhersla á að minnka sóun í veitingaþjónustu vegna funda og viðburða. Minna af einnota plasti og plastflöskum

Plast


Árið 2016 var gert töluvert átak til að draga úr plastnotkun í höfuðstöðvum bankans. Óendurvinnanlegum kaffimálum og umbúðum var skipt út fyrir lífniðurbrjótanlega (e. compostable) valkosti og unnið var að því að draga úr einnota plastumbúðum í mötuneyti. Samið var við fjölda birgja um að tryggja að aðföng berist í fjölnota plastbökkum í stað þess að þeim sé pakkað inn í minni, einnota plastumbúðir.

Þá voru framleiddir umhverfisvænir fjölnota pokar fyrir viðskiptavini og starfsfólk sem Rán Flygenring listakona myndskreytti. Á pokunum er að finna gagnlegar upplýsingar um umhverfisvernd. Með framtakinu er ætlunin að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að hver og einn líti í eigin barm og leggi sitt af mörkum til að stuðla að minni mengun og betri framtíð.

Í lok ársins var tekin ákvörðun um að fjárfesta í vatnskælikerfi fyrir höfuðstöðvar bankans og verður kerfið innleitt á fyrri hluta árs 2017. Gert er ráð fyrir að kerfið muni gera plastflöskur óþarfar á fundum í höfuðstöðvunum og þar með verði dregið verulega úr notkun plastumbúða. Auk þess verður plastpokum, sem meðal annars hafa verið notaðir fyrir gjafir bankans til viðskiptavina og utan um skiptimynt í útibúum, skipt út fyrir bréfpoka.

Pantaðir hafa verið inn merktir pennar fyrir viðskiptavini og starfsfólk sem búnir eru til úr endurvinnanlegu plasti og eru þar af leiðandi umhverfisvænni en ella. Þá verður plastglösum og diskum sem notaðir eru á viðburðum skipt út fyrir glös og diska sem brotna niður í náttúrunni.


Notkun á pappír


Lögð hefur verið mikil áhersla á að draga úr pappírsnotkun bankans á undanförnum árum. Árið 2012 var gerður samningur við Nýherja um „rent a prent“ lausn sem gerir Arion banka kleift að stýra aðgangi að öllum prenturum og ljósritunarvélum. Lausnin byggir á fullkomnum hugbúnaði sem krefst þess að starfsmaður staðfesti prentbeiðni sína með aðgangskorti við prentara. Rent a prent lausnin hefur skilað sér í töluverðum pappírssparnaði frá innleiðingu árið 2012.

Um áramótin voru ekki prentuð út dagatöl eins og venjan hefur verið. Segja má að ákvörðunin sé tímanna tákn þar sem aukin tölvu- og snjallsímanotkun hefur það í för með sér að fólk nýtir tæknina sífellt meira til að skipuleggja tímann sinn. Ákvörðunin er einnig í takt við stefnu bankans um að sýna umhverfinu umhyggju og virðingu. Á síðasta ári prentaði bankinn út 69 þúsund dagatöl og er því um verulegan pappírssparnað að ræða.

Árið 2017 verður upplýsingum um pappírssparnað miðlað til starfsmanna í gegnum umhverfishugbúnaðinn, mælanleg markmið verða sett og árangur birtur reglulega.

Á árinu setti Arion banki sér það markmið að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi. Bankinn ætlar þannig að auka aðgengi viðskiptavina að stafrænum vörum og þjónustu og að nokkrum árum liðnum verður þjónustuframboð bankans að mestu aðgengilegt á netinu þar sem viðskiptavinurinn getur afgreitt sig sjálfur með einföldum hætti. Áherslur bankans á stafræna þjónusta eiga sérlega góða samleið með umhverfisvernd þar sem verulega er dregið úr pappírsnotkun með innleiðingu þjónustunnar auk þess sem viðskiptavinir hafa möguleika á að fara færri ferðir í útibú. Nánari upplýsingar um stafræna þjónustu Arion banka má finna á heimasíðu Arion banka og í ársskýrslu fyrir árið 2016.


Svansvottuð efni

Þrif


ISS Ísland og Hreint ræsting sjá um þrif fyrir Arion banka um land allt. Bæði þessi fyrirtæki hafa skýra stefnu um umhverfis- og gæðamál og hafa hlotið Svansvottun fyrir sína starfsemi. 


Samfélagslega ábyrg innkaup

Innkaupastefna og birgjamat


Árið 2016 hófst undirbúningur fyrir innleiðingu á nýju birgjamati fyrir bankann en gert er ráð fyrir að því verkefni ljúki árið 2017. Birgjamatið mun taka mið af getu birgjanna til að framvísa yfirliti yfir eigin umhverfismál með lýsingu á aðgerðum þeirra til að lágmarka umhverfisáhrif sín.

Mötuneytið hefur nú þegar innleitt verklag sem krefst þess að birgjar geti gert grein fyrir uppruna þeirra aðfanga sem berast til mötuneytisins. Þannig hefur verið lögð áhersla á samfélagslega ábyrg innkaup.


Að meðaltali nýta um 10% starfsfólks sér samgöngustyrk í hverjum mánuði

Samgöngustefna


Arion banki leggur sitt af mörkum til að bæta heilsu starfsfólks og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum með samgöngustefnu sinni. Markmið samgöngustefnunnar er að auka nýtingu starfsfólks á vistvænum og hagkvæmum ferðamáta. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta annan en að ferðast til og frá vinnu í einkabílum, s.s. að ganga, hjóla, fá far með öðrum eða ferðast með almenningssamgöngum. Til að fylgja stefnunni eftir leggur Arion banki áherslu á eftirfarandi atriði:

 • Arion banki hvetur starfsfólk sitt til að nota almenningssamgöngur til og frá vinnu. Í þeim tilgangi hefur Arion banki gert samning við Strætó bs. um samgöngukort fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar strætisvagna til að ferðast til og frá vinnu
 • Arion banki gerir samgöngusamning við þá starfsmenn sem nota vistvænan ferðamáta
 • Samgöngustyrkur er greiddur út mánaðarlega með launum ef vistvænn ferðamáti er notaður minnst fjórum sinnum í viku
 • Arion banki kappkostar að tryggja góða aðstöðu á vinnustað fyrir þá sem stunda vistvænan ferðamáta
 • Arion banki greiðir leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar vistvænan ferðamáta
 • Þegar pantaðir eru leigu- eða bílaleigubílar skal óskað eftir vistvænum bílum
 • Arion banki hvetur starfsfólk til að fjölga síma- og fjarfundum eins og kostur er
Ferðavenjur starfsfólks hafa ekki verið kannaðar með markvissum hætti en fjöldi umsókna um samgöngustyrk gefur ákveðnar vísbendingar. Samgöngustyrkir hafa verið veittir frá árinu 2012 og að meðaltali nýta um 10% starfsfólks sér samgöngustyrk í hverjum mánuði. 


Vistvænir leigubílar


Samið hefur verið við þjónustuaðila um að senda vistvæna leigubíla þegar þeir eru tiltækir. Árið 2017 verður unnið að því að fá enn frekari upplýsingar um umfang og mengun sem af þessari þjónustu hlýst.


46% samdráttur í flognum kílómetrum


Arion banki leggur áherslu á það að fá fullt yfirlit yfir kolefnisspor vegna viðskiptaferða bæða innan- og utanlands að meðtöldu flugi. Árið 2016 var unnið að því að draga úr fjölda flugferða og nýta þess í stað fjarfundarbúnað bankans. Verkefnið skilaði mjög góðum árangri en heildarfjöldi floginna kílómetra vegna ferða til útlanda dróst saman um 46% árið 2016 ef miðað er við árið 2015. Stefnt er að því að fá enn betri yfirsýn yfir flug á vegum bankans árið 2017.


Arion styður við Skógræktarfélag Íslands

Mótvægisaðgerðir


Arion banki og forverar hans hafa til margra ára stutt við bakið á Skógræktarfélagi Íslands meðal annars með ræktun skóga og stuðningi við einstök verkefni sem miða að því að bæta aðgengi almennings að skógræktarsvæðum, aukinni fræðslu og fegrun umhverfis. Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Arion banka, útnefnir árlega ,,Tré ársins“ en útnefningunni er ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt.


Árið 2017 mun Arion banki styðja verkefnið ,,Skógarvist, skógargátt og lýðheilsa“ sem Skógræktarfélag Íslands stendur fyrir. Verkefninu er ætlað að auka enn frekar þekkingu almennings á skógum, bæta aðgengi að upplýsingum og auka útivistarmöguleika í skóglendi landsins. Þá mun bankinn einnig setja fjármuni í skógrækt við Úlfljótsvatn á vegum Skógræktarfélagsins og verður árangurinn af þeirri ræktun talin fram í umhverfisuppgjöri ársins 2017.

 

VIÐ BYGGJUM Á ÁREIÐANLEGUM REKSTRARGÖGNUM

AÐFERÐAFRÆÐI

Árið 2016 var innleiddur hugbúnaður sem safnar mæligildum frá hverri rekstrareiningu og streymir þeim í miðlægan gagnagrunn fyrir umhverfismál. Í gagnagrunninum eru gögnin samtvinnuð, losun gróðurhúsalofttegunda reiknuð og greiningar á kolefnisspori fyrirtækisins framkvæmdar.

Upplýsingarnar eru birtar í notendaviðmóti hugbúnaðarins sem hannað er til að gefa góða yfirsýn yfir umhverfismálin og ýmsa rekstrarþætti og þannig aðstoða stjórnendur við að ná fram árangri í umhverfismálum og aukinni rekstrarhagræðingu. Innleiðingin hefur gengið samkvæmt áætlun. Gögn frá íslensku olíufélögunum streyma í gagnagrunn umhverfismála auk upplýsinga um magn og tegund sorps sem sótt er í starfsstöðvar Arion banka.

Gögn um rafmagnsnotkun streyma frá öllum útibúum og öðrum fasteignum félagsins í gagnagrunninn og til stendur að tengjast gagnalindum varðandi gagnaeyðingu, leigubílanotkun og póstsendingar á vegum bankans. Þau gögn sem birtast í þessari skýrslu ná utan um u.þ.b. 90% af gögnum varðandi millilandaflug og unnið verður í því árið 2017 að fá upplýsingar frá erlendum flugfélögum og um innanlandsflug. Vinna er hafin við að streyma gögnum um húshitun og vatn í gagnagrunn umhverfismála og mun henni ljúka á árinu.


Þeir útreikningar sem hér eru birtir byggja á aðferðafræði „Greenhouse Gas Protocol“ sem skiptir losunarþáttum í þrjú umföng:


Umfang 1 inniheldur þá losun sem telst til beinna áhrifa af starfsemi fyrirtækja. Umfang 1 einskorðast við eldsneytisnotkun bílaflotans í tilfelli Arion banka en hún jókst um 2,6% á milli áranna 2015 og 2016. Betri yfirsýn hefur náðst yfir olíunotkun farartækja þar sem gagnatengingar hafa verið bættar.


Umfang 2 inniheldur losun vegna rafmagnsnotkunar og húshitunar. Losun af þessu tagi telst til óbeinna áhrifa vegna starfsemi bankans. Losun umfangs 2 lækkar frá fyrra ári um 0,74% en það skýrist af minni raforkunotkun á árinu 2016. Við útreikning á árinu 2015 var tekið tillit til áhrifa af sölu upprunavottorða raforku og var skiptingin þannig; endurnýjanleg orka 71%, jarðefnaeldsneyti 17% og kjarnorka 12%. Þar sem ekki hefur verið gefin út upprunayfirlýsing fyrir árið 2016 er reiknað með sömu samsetningu orku og árið 2015. Rafmagnsnotkunin verður endurreiknuð í júní 2017. 


Umfang 3 inniheldur óbeina losun vegna þjónustu við bankann. Hér er um að ræða ýmsa þætti, svo sem hlutdeild verktaka í flutningum á vegum félagsins, akstur starfsmanna til og frá vinnu og flug starfsmanna. Einnig er um að ræða losun vegna aksturs á úrgangi frá starfsstöðvum félagsins. Viðskiptaferðir til útlanda bættust við umfang 3 árið 2016 og gert er ráð fyrir að gagnatenging komist á vegna leigubílaferða á vegum bankans snemma árið 2017.


Þessi skýrsla birtir kolefnisspor Arion banka árin 2015 og 2016, markmið áranna 2016 og 2017 auk aðgerðaáætlunar fyrir 2017. Mikilvægt er að halda áfram þeirri vinnu sem hófst á árinu 2015 og tryggja þannig að ávinningur Arion banka og umhverfisins verði sem allra mestur. KOLEFNISUPPGJÖR

Taflan sýnir kolefnisspor umfangs 1, 2 og 3 árin 2015 og 2016.

LOSUNARBÓKHALD


Losun gróðurhúsaloft tegunda í tonnum CO2 ígilda

Lýsing

2016

2015

Umfang 1

90

88

Umfang 2

 693

692

Umfang 3

154

248

Samt als kolefnisspor (t CO2 í)

937

1.028

Kolefnisbinding

-

-

Kolefnisjöfnun

-

-

Kolefnisspor (t CO2 í)

937

1.028

KOLEFNISVÍSAR

Taflan gefur yfirlit yfir kolefnisvísa bankans sem reiknaðir eru sem tonn CO2 ígilda á heildareignir, meðalstarfsmannafjölda og stærð húsnæðis í rúmmetrum.Kolefnisvísar

Lýsing

2016

2015

Heildareignir í milljörðum króna

1.033

998

Meðalfjöldi starfsfólks

936

929,5

Stærð húsnæðis í rúmmetrum

114.146

119.189

Kolefnisvísir (t CO2í/heildareignir (ma)

0,91

1,03

Kolefnisvísir (t CO2í / starfsf.)

1,00

1,11

Kolefnisvísir (t CO2í /m3 húsn.)

0,008

0,009


Kolefnisvísarnir þrír hafa allir dregist saman árið 2016 miðað við árið 2015. Starfsmannafjöldi bankans sveiflast töluvert þar sem starfsfólk bætist við yfir sumartímann. Af þeirri ástæðu er starfsmannafjöldi bankans reiknaður sem meðaltal af starfsmönnum í upphafi árs og í lok árs. Sem dæmi má nefna að í upphafi árs 2016 voru 927 starfsmenn starfandi hjá bankanum í 876 stöðugildum. Alls voru starfandi 945 starfsmenn í 869 stöðugildum í lok árs 2016. Að meðaltali voru 936 starfsmenn starfandi á árinu.

ELDSNEYTI

Taflan sýnir árlega eldsneytisnotkun bílaflotans. Sjá má að eldsneytisnotkun hefur aukist á milli ára.

UMFANG 1


Eldsneytisnotkun í lítrum

Lýsing

2016

2015

Díselolía

31.840

29.348

Díselolía (Bio)

332

283

Bensín (95 okt)

1.207

2.916

Samtals eldsneytisnotkun

33.379

32.547

Kolefnisspor  (t CO2 í)

90

88

RAFORKA

Taflan sýnir heildarraforkunotkun bankans á árunum 2015 og 2016 og það kolefnisspor sem af henni hlýst.

UMFANG 2


Heildarraforkunotkun í kWh

Lýsing

2016

2015

Raforkunotkun í kWh

4.021.015

4.050.812

Kolefnisspor (t CO2 í)

631

636

 

Raforkunotkun lækkaði um 0,74% á árinu 2016 ef miðað er við árið 2015. Reiknað er með enn frekari lækkun árið 2017 við uppsetningu LED lýsingar í höfuðstöðvum bankans.

Við útreikning á kolefnisspori er reiknað með sömu samsetningu orku 2016 og 2015. Orkustofnun gefur út yfirlýsingu um uppruna raforku í maí en þá verður kolefnissporið endurreiknað á þeim grunni.
HEITT VATN TIL HÚSHITUNAR

Taflan sýnir heitavatnsnotkun bankans í rúmmetrum fyrir starfstöðvar sem þjónustaðar eru af Orkuveitu Reykjavíkur. Yfirlit yfir heitavatnsnotkun í rúmmetrum

Lýsing

2016

2015

Heitavatnsnotkun í m3

121.619

108.266

Kolefnisspor (t CO2 í)

62

56

Notkun á heitu vatni hefur aukist um 12,33% á milli ára en gera má ráð fyrir breytingum á heildartölum þegar gagnastraumum fjölgar.

ÓBEIN LOSUN

Taflan sýnir kolefnisspor vegna flugferða, sorphirðu og urðunar, sem teljast til umfangs 3 - óbeinnar losunar.

UMFANG 3


Losun sem fellur undir umfang 3 í tonnum CO2 ígilda

Lýsing

2016

2015

Kolefnisspor vegna flugferða

135,3

222,3

Kolefnisspor vegna sorphirðu og urðunar

18,7

25,7

Kolefnisspor (t CO2 í )

                             154

                             248


Verulega dró úr kolefnisspori umfangs 3 árið 2016 ef miðað er við árið 2015. Kolefnisspor
 flugferða með Icelandair og Wow Air dróst mikið saman eða um u.þ.b. 39%. Flugfélögin ferja starfsfólk bankans í u.þ.b. 90% tilfella þegar um viðskiptaferðir erlendis er að ræða. Stefnt er á að árið 2017 bætist við gögn um þær u.þ.b. 10% viðskiptaferða sem vantar.

Kolefnisspor sorphirðu og urðaðs úrgangs hefur einnig dregist mikið saman eða um 27%Gögn um sorphirðu vantar fyrir þau útibú sem deila húsnæði með öðrum fyrirtækjum eða stofnunum en stefnt er á að þær tölur bætist við umhverfisuppgjörið fyrri hluta 2017. Gögnum vegna leigubílanotkunar á vegum bankans verður bætt við árið 2017.

ÚRGANGUR

Taflan sýnir þróun á magntölum úrgangs frá bankanum. Tölurnar sýna allt magn úrgangs sem Gámaþjónustan og Íslenska Gámafélagið sækja í starfsstöðvar bankans um land allt nema þar sem bankinn deilir húsnæði með öðrum.


MAGNTÖLUR


Yfirlit yfir heildarmagn úrgangs í tonnum

Lýsing

2016

2015

Endurvinnsla/endurnýting

44,2

53,7

Urðun

64,6

69,8

Heildarmagn úrgangs

                          108,8

                          123,5

Kolefnisspor (t CO2 í)

                            18,7

                            25,7

Flokkar í endurvinnslu /endurnýtingu:

 

 

Sorp til moltugerðar

33,4

38,2

Sorp til niðurbrots (WC úrgangur)

-

0,80

Endurvinnsla (opin hringrás)

0,05

0,95

Endurvinnsla (lokuð hringrás)

10,8

13,7MATARSÓUN

Myndin sýnir þann árangur sem náðst hefur í matarsóunarverkefni Arion banka í höfuðstöðvum.

Mælingar á matarsóun hófust í apríl en verkefnið var kynnt í lok júní. Tölur fyrir júlí og ágúst eru að líkindum ekki marktækar þar sem um sumarleyfistíma var að ræða. 

Sjá má að magn matvæla sem hent var að meðaltali fyrstu þrjá mánuðina áður en átakið var kynnt til sögunnar voru tæp 327 kg á mánuði. Síðustu fjóra mánuði ársins var magnið að meðaltali komið niður í tæp 272 kg og var því að meðaltali u.þ.b. 17% minna. 


PAPPÍRSNOTKUN

Taflan sýnir yfirlit yfir fjölda prentaðra blaðsíðna árin 2015 og 2016.Yfirlit yfir pappírsnotkun / fjöldi prentaðra blaðsíðna

Lýsing

2016

2015

Litaprentun 

830.151

913.333

Svarthvít prentun

2.343.435

2.315.061

Tvíhliða prentun

1.637.320

1.668.218

Heildarfjöldi blaðsíðna

2.354.926

2.394.285

Pappírsvísir (bls./starfsmann)

2.516

2.576

 

Fjöldi prentaðra blaðsíðna dróst saman um 1,64% á milli ára en auk þess hefur hlutfall svarthvítra blaðsíðna aukist og litaprentun dregist saman.

KALT VATN

Taflan sýnir kaldavatnsnotkun bankans árin 2015 og 2016 í rúmmetrum. Kaldavatnsnotkunin hefur aukis lítillega milli ára eða um 2,3%.Yfirlit yfir kaldavatnsnotkun í rúmmetrum

Lýsing

2016

2015

Kaldavatnsnotkun í m3

66.810

65.337

Kaldavatnsvísir (m3/starfsmann)

69,6

72,7


YFIRLIT YFIR ORKUNOTKUN

Taflan gefur yfirlit yfir orkunotkun bankans í kWh á árunum 2015 og 2016. Sjá má að heildarorkunotkun dróst saman um 0,96% vegna samdráttar í raforkunotkun.

ORKUNOTKUN


Yfirlit yfir orkunotkun í kWh

Lýsing

2016

2015

Notkun á jarðefnaeldsneyti

344.960

333.381

Notkun á raforku

4.020.015

4.088.455

Notkun á heitu vatni

121.619

108.266

Samtals orkunotkun

4.486.594

4.530.102

UMHVERFISMARKMIÐ

Taflan sýnir árleg markmið og rauntölur fyrir umföng 1, 2 og 3 sett fram sem tCO2 ígildi.

MARKMIÐ


Markmið um losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum COígilda

Lýsing

2017M

2016R

2016M

2015

Umfang 1

88

90

86 

88 

Umfang 2

679

693

678 

692 

Umfang 3

150

154

243 

248 

Kolefnisspor (t CO2 í) 

 917

937

1007 

1028 

Kolefnisbinding

0

Kolefnisjöfnun

0

Samtals kolefnisspor (t CO2 í)

917

937

1007 

1028 

Markmið sem sett voru á árinu 2016 eru sýnd undir liðnum 2016M en rauntölurnar í dálkinum 2016R. Fyrir árið 2017 var sett markmið um 2% samdrátt í kolefnisspori umfangs 1 og 2 þegar miðað er við árið 2016.

Umfang 3 inniheldur kolefnisspor flugferða, sorphirðu og urðaðs sorps. Stefnt er á að bæði heildarmagn úrgangs og hlutfall urðaðs úrgangs dragist saman en að kolefnisspor vegna flugferða standi í stað.  Markmið umfangs 3, 2,6% samdráttur í losun þegar miðað er við 2016, má því að öllu leyti rekja til lækkunar í heildarmagni sorps og minni urðunar.


ÚRGANGSMARKMIÐ

Taflan sýnir árleg markmið og rauntölur í úrgangsmálum sett fram sem tonn og tCO2 ígildi.Úrgangsmarkmið

Lýsing

2017M

2016R

2016M

2015R

Endurvinnsla/ endurnýting/ moltugerð (tonn)

48,95

44,2

56,75

53,7

Urðað (tonn)

48,95

64,6

56,75

69,8

Heildarmagn úrgangs (tonn)

97,9

108,8 

113,50 

123,5 

Samtals kolefnisspor (t CO2 í)

14,8 

18,7 

25,7 


Markmið fyrir árin 2016 og 2017 voru sett fram í umhverfisskýrslu fyrir árið 2015. Samkvæmt þeim átti heildarmagn úrgangs að lækka um 20 tonn á tímabilinu eða 10 tonn á hvoru ári fyrir sig. Árið 2016 var markmiðið að hlutfall urðaðs úrgangs yrði til jafns við úrgang í endurvinnslu/endurnýtingu/moltugerð. Markmið 2017 er að hlutfallið verði 60% endurnýtt/endurunnið og 40% urðaður úrgangur.

Ljóst er að markmiðinu um 10 tonna samdrátt í heildarmagni úrgangs var náð og gott betur. Hlutföllin voru þó ekki jafn hagstæð og vonir stóðu til.

Ákveðið var að endurskoða markmiðin fyrir árið 2017. Sett var markmið um 10% samdrátt í heildarmagni úrgangs á árinu ef miðað er við 2016. Þar sem markmiði ársins 2016 um hlutfallsskiptingu endurvinnslu/endurnýtingar/moltugerðar og urðaðs úrgangs var ekki náð var ákveðið að það myndi gilda fyrir árið 2017.


VERKEFNI ÁRSINS 2017


AÐGERÐAÁÆTLUNVerkefni 1: Innleiðing á rafrænum umhverfishugbúnaði

Tryggja bæði mælanleika á umhverfisáhrifum allra rekstrareininga í virðiskeðjunni með rafrænni gagnasöfnum og reglulegri upplýsingagjöf til stjórnenda. Heildstæður umhverfishugbúnaður hefur verið tengdur öllum helstu gagnalindum. Vinna er hafin við að tengjast rafrænum gagnalindum frá flugfélögum, leigubílastöðvum og Rent a prent. Gögnum um bílaleigubíla, innanlandsflug og gagnaeyðingu verður streymt inn í gagnagrunn umhverfismála á árinu.

 

Verkefni 2: Birting umhverfisupplýsinga

Kolefnisspor Arion banka verður birt í umhverfisuppgjöri og ársskýrslu félagsins. Einnig verða upplýsingar um loftslagsmarkmið Arion banka gerðar aðgengilegar fyrir almenning í samræmi við loftslagsyfirlýsinguna. Þá verður upplýsingum um pappírsnotkun miðlað til starfsmanna reglulega.

 

Verkefni 3: Frekari olíusparnaður

Skoðað verður hvort boðið verði upp á námskeið í sparakstri fyrir starfsfólk. Vistakstur getur stuðlað að bæði minni losun gróðurhúsalofttegunda en auk þess getur hann skilað sér í olíusparnaði. Algengt er að námskeið í vistakstri geti skilað sparnaði í lítrum á bilinu 10-18%. Einnig verður skoðað hvort fýsilegt sé að festa kaup á rafmagnsreiðhjólum sem starfsmenn geta notað á vinnutíma. 

 

Verkefni 4: Umbætur í sorpflokkun

Áfram verður unnið að umbótum í sorpflokkun í starfsstöðvum félagsins með sérstakri áherslu á útibú bankans. Einnig verður skoðað hvernig hægt er að mæla magn sorps sem fellur til í útibúum þar sem sorphirða er sameiginleg með öðrum félögum. Unnið verður að því að setja upplýsingar um gagnaeyðingu inn í miðlægt kerfi og draga úr pappír sem sendur er til gagnaeyðslu frá höfuðstöðvum félagsins. Þá verða upplýsingar um póstsendingar á vegum bankans skráðar með rafrænum hætti og skoðað hvort draga megi úr þeim sendingum. Stefnt er á að starfsmenn geti keypt fjölnota bolla í kaffihúsi í höfuðstöðvum bankans. 

 

Verkefni 5: Dregið úr raforkunotkun á starfsstöðvum

Árið 2016 hófst vinna við að endurskoða lýsingu í höfuðstöðvum bankans og útibúum hans. Hefðbundnum ljósaperum verður skipt út fyrir LED ljósaperur í höfuðstöðvum bankans á næstu árum. Nú þegar hefur 500 hefðbundnum ljósaperum verið skipt út fyrir LED perur. Áætlað er að þetta verkefni geti sparað umtalsverða orku.

 

Verkefni 6: Flug starfsmanna

Vinna er hafin við að streyma upplýsingum um vinnuferðir innan- og utanlands í gagnagrunn umhverfismála. Upplýsingarnar bætast við umfang 3 í umhverfisuppgjöri bankans. Góður árangur náðist í að draga úr flugsamgöngum milli landa árið 2016 og verður áfram unnið í að viðhalda þeim árangri. 

 

Verkefni 7: Dregið úr notkun einnota plasts

Vatnsskammtari verður tekinn í notkun á fyrri hluta 2017 en hann mun leysa af hólmi hefðbundnar plastflöskur á fundum í höfuðstöðvum bankans. Ritföng og rekstrarvara bankans verður tekin til sérstakrar skoðunar. Stefnan er að skipta út öllu því einnota plasti sem nú er notað í veitingaþjónustunni fyrir umbúðir og ílát sem brotna niður í umhverfinu.

 

Verkefni 8: Endurskoðun á birgjamati

Undirbúningur fyrir innleiðingu á nýju birgjamati þar sem tekið er tillit til umhverfisþátta er hafinn og verður því verkefni lokið á árinu 2017. Auk þess er undirbúningur fyrir nýja innkaupastefnu hafinn. Við birgjamat árið 2017 verður tekið sérstakt mið af umhverfisstefnu þjónustuaðila Arion banka. Unnið verður að því að tryggja að birgjar Arion banka geti gert grein fyrir umhverfismálum sínum og að tekið sé mið af þeim í rekstri þeirra.